Í fyrstu kennsluviku janúarmánaðar kom Jón Pétur Úlfljótsson danskennari til okkar 28 árið í röð til að kenna nemendum Þingeyjarskóla hina ýmsu dansa. Venjan er sú að hann dvelur hjá okkur viku í senn og endar veru sína á því að stjórna danssýningu nemenda skólans. Óhætt er að segja að það er alltaf gleðiefni að fá Jón Pétur til okkar. Hann nær afar vel til allra og ánægjulegt að sjá til nemenda hjá honum í dansinum. Jón Pétur er að hefja sitt 40 starfsár sem danskennari og gaman að hann skuli byrja árið hjá okkur.
Það er ánægjulegt að segja frá því að merki Þingeyjarskóla er komið upp og prýðir leikskólainngang Barnaborgar.
Eins og sagt var frá á skólaslitum Þingeyjarskóla síðast liðið vor var ákveðið að nota hluta af listaverki eftir nemanda skólans í merki skólans. Listamaðurinn Gerður Fold Arnardóttir var nemandi skólans og er foreldrum hennar þakkað fyrir að mega nota listaverkið í þessum tilgangi.
Kristrún Ýr Óskarsdóttir sjónlistakennari vann merkið út frá listaverkinu.
Merkið er fallegur minnisvarði um Gerði Fold sem lést 1. nóv. 2023.
Merkið minnir okkur á að sér hver nemandi skólans, sérhvert barn skiptir miklu máli og hversu mikilvægt það er að hæfileikar hvers nemanda fái notið sín í skólanum. Með sínum náttúrulegu formum og litum minnir merkið okkur einnig á náttúruna og hversu dýrmæt tengslin við hana eru fyrir skólastarf Þingeyjarskóla.
Það var löngu tímabært að koma upp merki Þingeyjarskóla ásamt einkennisorðum skólans sem eru: Ábyrgð, virðing og gleði.