Þingeyjarskóli er samrekinn leik- og grunnskóli með öfluga tónlistardeild. Grunnskóladeildin heitir Þingeyjarskóli og er staðsett í landi Hafralækjar í Aðaldal. Í sama húsnæði er leikskólinn Barnaborg. Leikskólinn Krílabær er á Laugum í Reykjadal. Þingeyjarskóli er einn af þremur skólum Þingeyjarsveitar.
Þingeyjarskóli tók til starfa haustið 2012 eftir sameiningu grunnskólanna Hafralækjarskóla og Litlulaugaskóla og tónlistardeilda þeirra og
leikskólanna Barnaborgar og Krílabæjar. Grunnskólinn og tónlistardeildirnar
störfuðu bæði í Litlulaugaskóla og í Hafralækjarskóla til vors 2015 en þá var ákveðið að færa alla starfsemi skólans, nema leikskóladeildanna, í húsnæði Hafralækjarskóla og um leið að nota alfarið nafn Þingeyjarskóla. Í ágúst árið 2019 var starfsemi leikskóladeildarinnar Barnaborgar færð í húsnæði Þingeyjarskóla á Hafralæk. Haustið 2024 var gerð sú skipulagsbreyting að ráðinn var skólastjóri leikskóladeilda og þar með starfa tveir skólastjórar við Þingeyjarskóla.
Mötuneyti í Þingeyjarskóla annast innkaup og matseld fyrir nemendur grunnskóladeildar og Barnaborgar og matsalur er sameiginlegur. Í Krílabæ á Laugum er matreitt daglega fyrir nemendur og starfsfólk deildarinnar. Þónokkrir kennarar skólans koma að kennslu á bæði leik- og grunnskólastigi og annað starfsfólk tekur einnig þátt í verkefnum fyrir bæði skólastig.
Nemendur Þingeyjarskóla eru um 100 talsins, þar af eru leikskólanemendur um 30 á tveimur starfsstöðvum, á Laugum og í húsnæði Þingeyjarskóla í Aðaldal. Um tveir þriðju hluta grunnskólanemenda stunda nám við tónlistardeild skólans sem fram fer á skólatíma. Fyrir haust- og vorgleði skólans sameina grunnskóladeildin og tónlistardeildin krafta sína og nemendur setja upp leiksýningar þar sem áhersla er á þátttöku allra. Nemendur skólans undirbúa og aðstoða við sviðsmynd, sauma búninga, leika, syngja og annast undirspil af miklum krafti og sköpunargleðin leynir sér ekki. Tónlistarkennarar vinna einnig með leikskóladeildum í vikulegum tónlistartímum og sinna undirspili þegar leikskólanemendur syngja fyrir gesti og setja jafnvel á svið litla leikþætti.
Stefna um Jákvæðan aga er hluti af starfi allra deilda skólans. Verkgreinastofur skólans eru virkilega vel nýttar af bæði leik- og grunnskólanemendum og íþróttakennari skólans sinnir kennslu í íþróttahúsi og leikskóladeildum. Almenn áhersla er lögð á að styrkleikar hvers og eins nemanda sem og þekking og hæfni hvers starfsmanns fái að njóta sín sem best, nemendum og skólanum til heilla.