- Fréttir
- Deildir skólans
- Grunnskóladeild
- Leikskóladeild Barnaborg
- Leikskóladeild Krílabær
- Tónlistardeild
- Nemendur
Við byrjuðum starfskynningarviku á hópastarfi á sex starfsstöðum. Þar voru nemendur að taka áhugasviðskönnun, kynna sér námsleiðir og inntökukröfur fyrir störfin sem þau hafa áhuga á, reiknuðu laun og kynntu sér skattþrep o.fl., hönnuðu logo fyrir verkefnið, lærðu að gera vefsíðu og fóru svo í Breakout. Þá fengum við einnig þrjár heimsóknir. Oddur Bjarni Þorkelsson, Sigurbjörn Árni Arngrímsson, Þorri Gunnarsson og Margrét Embla Reynisdóttir komu og sögðu okkur sínar skemmtilegu sögur.
Á þriðjudaginn lögðum við land undir fót og heimsóttum fyrirtæki í Norðurþingi. Nemendur höfðu valið sér fyrirtæki til að heimsækja en þeim stóð til boða að skoða Trésmiðjuna Rein, Faglausn, Eimskip, Bílaþjónustuna, Lögregluna, Sjúkraflutninga og Slökkvilið, Bellitas snyrtistofu og Hárform, Fablab, Norðlenska, Saltvík, Garðarshólma og Skóbúð Húsavíkur.
Á miðvikudaginn héldum við áfram í hópastarfi þar sem nemendur unnu að því að gera kynningar á þeim fyrirtækjum sem þau höfðu heimsótt. Auk þess fengum við aftur þrjár heimsóknir. Eva Sól Pétursdóttir var á fjarenda og sagði okkur sína sögu um það hvernig hún gerðist vefforritari fyrir Landsbankann, Halldóra Kristín Bjarnadóttir sagði okkur frá sínum uppvexti og hvernig hún varð ljósmyndari. Loks heyrðum við í Þráni Árna Baldvinssyni sem sagði okkur frá skrautlegri skólagöngu og hvernig hann komst á þann stað að reka sinn eigin tónlistarskóla ásamt því að vera gítarleikari í Skálmöld.
Á fimmtudaginn fórum við aftur í fyrirtækjaheimsóknir. Þá gátu nemendur valið milli þess að skoða Sel - Hótel Mývatn, Vogafjós, Hveravelli, Búvelli, Isavia og Laxárvirkjun. Eftir hádegi héldum við svo áfram í hópavinnunni og nemendur fóru að safna efni inn á vefsíðuna sem þau eru að útbúa.
Við enduðum svo vikuna inn á Akureyri og heimsóttum Háskólann á Akureyri þar sem haldin var starfamessa. Þá var grunnskólanemendum boðið að koma og fá kynningu frá hinum ýmsu fyrirtækjum.
Hér má finna vefsíðuna sem nemendur unnu þessa viku
https://sites.google.com/thingskoli.is/fjallafrettir