- Fréttir
- Deildir skólans
- Grunnskóladeild
- Leikskóladeild Barnaborg
- Leikskóladeild Krílabær
- Tónlistardeild
- Nemendur
Um þessar mundir kveðjum við einn af nemendum okkar, yndislega litla stúlku sem tekin var frá okkur allt of snemma. Elsku Gerður Fold byrjaði í Leikskólanum Barnaborg í ágúst 2020. Hún var einstök stúlka, íbyggin og hugsandi. Það var aldrei neinn æsingur í henni, hún fór sínu fram á sinn rólega hátt og lét ekki svo auðveldlega slá sig út af laginu. Það var yndislegt að fylgjast með henni og frænda sínum Bjarna Þór leika saman og dansa fyrsta veturinn þeirra í leikskólanum. Gerður átti líka sinn eigin ríkulega ímyndunarheim og fannst þá oft gott að fá að leika sér í friði og ró. Á sama tíma var hún tryggur vinur og systir sem vildi öllum vel. Við fundum alltaf hvað Gerður bjó að miklu öryggi í fjölskyldu sinni.
Í leikskólanum þótti henni gaman að kubba, bralla í eldhúsleik, dansa, fara í fjölskylduleik með duplo karlana, leika með púðana eða slaka á úti í stóru rólunni með systrum sínum og góðum vinum og jafnvel taka lagið. Gerður Fold hafði unun af að syngja og var einstaklega fljót að læra lögin sem við sungum saman í leikskólanum, sem og hreyfingarnar sem þeim fylgdu. Það var líka gefandi að fylgjast með henni við alla skapandi iðju, svo sem að mála og teikna. Einbeitt og listræn skapaði hún mörg falleg verk og oftast bjó að baki þeim heilmikil saga sem hún glöð deildi með hverjum þeim sem vildu heyra.
Elsku Gerður Fold stendur okkur alla daga fyrir hugskotssjónum með sterku og mildu augun, fallega brosið og prakkaralega svipinn. Ástin var allt í kringum hana, ástin og aðdáunin gagnvart Emblu stóru systur, ástin og verndin gagnvart Móu litlu systur, ástin í fallegu fjölskyldunni í Ásgarði.
Það er svo átakanlega sárt að halda áfram í Barnaborg án elsku, ljúfu Gerðar Foldar okkar. Allir vinir hennar og við starfsfólkið í leikskólanum söknum hennar á hverjum degi og yljum okkur við allar fallegu minningarnar sem hún skilur eftir sig í hugum okkar og hjörtum.
Er sárasta sorg okkur mætir
og söknuður huga vorn grætir,
þá líður sem leiftur úr skýjum,
ljósgeisli af minningum hlýjum.
Elsku Örn, Dóra, Iðunn Embla og Auður Móa. Við eigum engin orð sem lýsa hversu innilega við samhryggjumst ykkur og fjölskyldu ykkar vegna fráfalls elsku Gerðar Foldar. Megi allar góðar vættir vera með ykkur og gefa ykkur styrk í sorginni. Hugur okkar er hjá ykkur.
Starfsfólk Barnaborgar