- Fréttir
- Deildir skólans
- Grunnskóladeild
- Leikskóladeild Barnaborg
- Leikskóladeild Krílabær
- Tónlistardeild
- Nemendur
Þingeyjarskóli er þátttakandi í alþjóðlegu Erasmus samstarfsverkefni ásamt skólum frá Portúgal, Danmörku, Tyrklandi, Ítalíu og Kýpur.
Verkefnið ber heitið Technology understanding and sustainability in practice og vinna þátttakendur mánaðarleg verkefni ýmist á sviði tækni í skólastarfi, sjálfbærni og/eða réttindi barna.
Verkefnið hófst á vorönn 2022 og spannar þrjú ár. Á tímabilinu skiptast þátttakendur á að bjóða heim og vikuna 25.-29. september var röðin komin að okkur.
Gestirnir voru 24 talsins, 22 kennarar auk eins eiginmanns og eins sonar, og lögðum við áherslu á að kynna fyrir þeim skólann okkar, nemendur og áherslur í skólastarfinu. Að auki sýndum við þeim fallega umhverfið okkar og allt það helsta sem svæðið okkar hefur uppá að bjóða. Við fórum m.a. með þá í heimsókn í Presthvamm, kíktum á Hvalasafn og í Grenjaðarstað, fengum leiðsögn um Laxárvirkjun og Þeistareykjavirkjun, sýndum þeim gróðurhúsin á Hveravöllum og allar fallegu náttúruperlurnar sem Mývatnssveitin hefur uppá að bjóða. Lokadaginn var svo tekinn langur rúntur þar sem byrjað var á rúgbrauðssmakki í Námaskarði og þaðan haldið áfram að Dettifossi, Hljóðaklettum og Ásbyrgi. Á heimleiðinni skelltu gestirnir sér svo í hvalasiglingu þar sem Skjálfandaflóinn tók vel á móti þeim. Að auki kynntum við þau fyrir Sjóböðum og Jarðböðunum sem þeir kunnu vel að meta í kuldanum.
Líkt og upptalningin hér að ofan ber með sér, höfðu gestirnir nóg að gera og var ekki laust við að mannskapurinn var orðinn frekar þreyttur í lok ferðarinnar. Þeir voru hins vegar allir ákaflega ánægðir og höfðu á orði að þeir gætu upplifað fátt hér eftir sem gæti toppað þessa upplifun þeirra.
Við erum því afar ánægð, hamingjusöm, þreytt og stolt eftir vikuna. Einnig erum við mjög þakklát samstarfsfólki okkar og nemendum fyrir að aðstoða okkur við að gera heimsóknina að þeirri upplifun sem hún varð.
Bestu kveðjur frá Erasmushópi skólans
Helga Sigurbjörg, Hildur Rós, Harpa Þorbjörg, Jóhann Rúnar, Árni Pétur og Aðalbjörn.