- Fréttir
- Deildir skólans
- Grunnskóladeild
- Leikskóladeild Barnaborg
- Leikskóladeild Krílabær
- Tónlistardeild
- Nemendur
Í haust kviknaði sú hugmynd hjá starfsfólki Þingeyjarskóla að prjóna peysu handa Jóni Pétri danskennara sem hefur kennt dans hjá okkur í aldarfjórðung. Garnafgöngum var safnað saman og svo hófst verkið á haustdögum. Prjónað var í öllum matar - og kaffipásum. Allir starfsmenn tóku þátt, þrátt fyrir mismikla kunnáttu á prjónaskap. Engin sérstök uppskrift, einungis spunnið af fingrum fram, sannkölluð afgangapeysa.
Með þakklæti í hverri lykkju gáfum við honum peysuna ásamt stóru korti með myndum af öllu starfsfólkinu prjónandi peysuna góðu. Örn Björnsson kennari samdi ljóð í sléttuböndum sem fylgdi með í kortinu. Skemmtilegt verkefni og frábær samvinna hjá starfsfólkinu.
Fugladans á rósum
(Sléttubönd)
Í aldarfjórðung hefur hann barist,
brosmildur, laufléttur kennarinn kær.
Kuldanæðingnum hefur hann varist.
Mikið verk þar unnið - margar ótroðnar tær.
Þungbær sannindin smánuð við játum
(lausnin var falin hvar við sátum og sátum).
Jón Pétur nötrandi dansinum þjónar,
Meðan starfsliðið situr og prjónar og prjónar.
Þetta ástand má ei líða lengur.
Lyftum prjónum, verkið skal vanda.
Vinna skal vel - hann er góður drengur.
Látum hendur úr ermum fram standa!
(og sameinumst öreigar allra landa).
Örn Björnsson (2022)